Holl útivera
Það getur fylgt því ákveðin gleði og ánægja að hjóla. Manni finnst maður vera frjáls eins og fuglinn og getur farið töluverðar vegalengdir á stuttum tíma. Þannig kemst maður á nýja staði, eða getur litið á sína gömlu góðu uppáhalds staði.
Einnig fær maður holla og góða útiveru og þarf á meðan hjólað er að nota athyglina til að stjórna hjólinu og fylgjast á sama tíma með öllu í kringum sig. Þannig getur maður gleymt áhyggjum sínum um stund og og fengið andlega nægringu og hvíld.
Þannig að andlega hliðin er ekki spurning að mínu mati, það getur verið mjög gjöfult fyrir sálina að hjóla. Til dæmis að hjóla í vinnuna getur gefið manni góða slökun og útrás sem endist allan daginn. Maður er þolinmóðari og áhyggjulausari að byrja daginn þannig.
Rafhjólin breyta miklu
Eftir að rafhjólin komu til, geta nánast allir farið að hjóla og hægt er að velja áreynslu sem hentar hverjum og einum.
Oft kemur til mín í búðina fólk sem hefur fengið hvatningu frá heilbrigðisstarfsmanni um að fara að hjóla. Þetta getur verið af ýmsum ástæðum, en algengast er líklega að viðkomandi sé með vandamál í hné. Þegar maður pedalar á hjóli, þá fær maður heilmikla hreyfingu og hnén liðkast en verða ekki fyrir höggum eins og er þegar hlaupið er. Einnig getur fólk með hjartavandamál haldið hjartslættinum innan marka með því að nota rafhjól og láta mótorinn vinna meira þegar álagið er meira. Ég veit til þess að fólk hafi haft mikið gagn af rafhjólum á þann hátt.
Helsti ávinningur af hjólreiðum
- Margir hafa mikla gleði og ánægju af þvi að stunda hjólreiðar.
- Hjólreiðar styrkja hné og aðra liði.
- Hjólreiðar auka vöðvamassann jafnvel meira en hlaup, sérstaklega á rassi og lærum.
- Á rafhjólum er hægt er að fá jafna og hæfilega áreynslu í langan tíma sem getur stundum verið gott fyrir hjarta og æðar, í samráði við lækni.
- Hægt er að léttast töluvert, en vissulega þarf einnig að huga að mataræði til þess að léttast
- Hjólreiðar draga úr loftmengun og eru umhverfisvænn samgöngumáti.
Helstu gallar og úrbætur
- Alltaf er fyrir hendi ákveðin fallhætta. Mest er hættan vegna hálku og lausamalar. Allir ættu að nota nagladekk að vetri til og breiðdekkja hjól eins og Jaxlinn hafa mun meira grip og skransa því miklu síður.
- Hætta er á að verða fyrir bíl. Gott er að velja sér leiðir þar sem ekki er bílaumferð. Einnig er mjög mikilvægt að bremsur séu ávalt í lagi.
- Á gagnstígunum er hætta á að hjóla á gangandi fólk. Því er mjög mikilvægt að hægja vel á hjólinu þegar farið er fram hjá fólki, og fara jafnvel niður fyrir gönguhraða, eða rétt út fyrir stíginn. Verum ávalt til fyrirmyndar á hjólunum og sýnum gangandi fólki mikla tillitssemi.