Geymsla, smurning og ryðvörn
Þegar rafhjólið er ekki í notkun, er best að geyma það innan dyra.
Mikilvægt er að smyrja og verja rafhjólið eins og hægt er.
Gott er að nota teflon sprey, en það sameinar smurningu og ryðvörn. Það ver ekki aðeins gegn vatni og salti, heldur einnig gegn ryki og óhreinindum, og smyr einnig.
Aftur á móti límist ryk og sandur við venjulega smurolíu, þannig að heyra má á keðjunni að þar inní er mikill núningur vegna óhreininda sem olían dregur að sér.
(Á myndinni er sýnd ein tegund af svona spreyi, en fleiri framleiðendur bjóða svipaða vöru. Ekki er alltaf notað vöruheitið Teflon heldur nota sumir framleiðendur efnaheitið PTFE.)
Með því getum við haldið rafhjólinu hreinu og fallegu í lengri tíma og varið það gegn tæringu.
Mælt er með að nota teflon spreyið á:
Keðjuna
Gírskipti
Skrúfur
Krómaða hluta demparas
Einu sinni til tvisvar í mánuði, til að hafa hjólið vel varið gegn salti, vatni og ýmsum tærandi efnum í umhverfinu.
Gætið þess að ekkert fari á bremsudiskinn, hann á að vera hreinn. Hafi af einhverri ástæðu olía eða önnur óhreinindi farið á bremsudiskinn, þá er hægt að hreinsa hann með rauðspritti og þurrkupappír.
Stillingar á rafmagni
Það getur komið fyrir að rafhjólið taki við sér af of miklu afli þegar farið er af stað. Hægt er að tóna til kraftinn í hjólinu, með því að stilla bæði hámarks kraftinn og/eða inngjöfina á hverju þrepi, bæði til lækkunar eða hækkunar.
Það er algjör óþarfi að hafa kraftinn of mikinn, sérstaklega á lægri þrepunum, og sjálfsagt að stilla hann niður. Þannig eykst öryggið, og drægnin líka.
Sjá sérstaka síðu um stillingar mælaborðs.
Loft í dekk
Ventlarnir eru eins og bílventlar og á dekkjunum stendur hver þrýstingurinn á að vera. Hægt er að fara á næstu bensínstöð og bæta lofti á, en einnig er gott að hafa pumpu heima við.
Ef hjólað er á dekkjum sem eru með of lágan þrýsting, þá er hætt við að slöngurnar merjist og skemmist. Það er því mikilvægt að hafa þrýstinginn yfir því lágmarki sem stendur á dekkjunum, sem er mismunandi eftir tegund dekkja.
Venjuleg 2ja tommu dekk: 30 til 55 PSI.
Breið dekk, Jaxlinn og Gustur: 10 til 25 PSI.
Meðferð rafhlöðu
Lithium batteríin á rafhjólunum geta haft ágæta endingu ef vel er með þau farið.
Passið vel lyklana, það eru engir varalyklar, (en það er hægt að sérpanta þá). Ef skipta þarf um rafhlöðu eða vinna við rafkerfið þá þarf að vera hægt að taka rafhlöðuna af.
Þegar tengt er við hleðslutækið, er best að hafa hleðslutækið ótengt við rafmagn og tengja það fyrst við rafhlöðuna og tengja það svo við innstungu í vegg. Þá neistar ekki, þó svo að plöggið lendi á vatnsdropa þegar maður tengir hleðslutækið við rafhlöðuna á hjólinu.
Hér á eftir eru nokkrar ábendingar sem lengt geta líftímann:
1 Hlaðið rafhlöðuna
Best að hlaða sem oftast, til dæmis eftir hverja notkun.
Ef það er ON/OFF rofi á rafhlöðunni, slökkvið þá á rafhlöðunni þegar ekki er verið að nota hjólið.
Takið hleðslutækið úr sambandi þegar ekki er verið að hlaða.
2 Tæmið rafhlöðuna stundum
Gott er að láta rafhlöðuna næstum tæmast u.þ.b. annan hvern mánuð, en ekki skilja rafhlöðuna eftir tóma.
3 Langtíma geymsla
Í langtíma geymslu er best að hlaða rafhlöðuna á u.þ.b. 3 mánaða fresti.
Ekki skilja rafhlöðuna eftir í hleðslu í langan tíma
4 Haldið rafhlöðunni hreinni og þurri
Rafhlöðurnar þola rigningu, en best er að halda þeim þurrum og hreinum eftir því sem kostur er, til að daga úr hugsanlegri tæringu.
5 Forðist mikinn hita
Það dregur úr endingu rafhlöðunnar ef hún er geymd á heitum stað. Forðist því að geyma hjólið nálægt ofni eða í miklum hita.
6 Opnið ekki batteríið
Lithium efnið í batteríinu er afar eldfimt og getur því verið hættulegt. Best er að láta sérfræðinga um að opna það, ef þess gerist þörf.
Höfundur pistils
Sveinn Pálsson
Sölumaður hjá Topphjólum