Að stilla gíra

Fátt er skemmtilegra þegar maður hjólar, en að finna að gírarnir séu vel stilltir og færist liðlega í þann gír sem maður óskar hverju sinni. Að sama skapi er leiðinlegt þegar gírarnir eru illa stilltir.

Gott er að geta sjálfur stillt gírana. Það er ekki svo flókið.

Eftirfarandi eru einfaldar leiðbeiningar:

Ef keðjan fer ítrekað fram af tannhjólunum á afturdekkinu þarf að stilla stoppskrúfurnar:

Séð aftan frá hjólinu takmarkar H skrúfan hversu langt gírskiptinginn getur færst til hægri, en L skrúfan takmarkar hversu langt gírskiptinginn getur færst til vinstri, sjá mynd.

Ef keðjan er að fara fram af minnsta tannhjólinu þarf að herða örlítið H skrúfuna. Hægt er að byrja á því að prufa að herða hana um 1/4 úr hring. Ef keðjan er að fara fram af nálægt teinunum, þá þarf að herða L skrúfuna. (Á myndinni táknar “clock” að herða (clockwise, skrúfa eins og klukkan snýst) en “anti” að slaka (anticlockwise) ).

 

Almenn stilling afturgíra:

Komið hjólinu þannig fyrir að hægt sé að snúa pedulunum og láta afturdekkið snúast. (Setjið hjólið annað hvort á stand eða snúið því á hvolf).

  1. Stilla hægra megin: Setja hjólið í efsta gír (7. eða 8.) og snúa pedulunum. Stilla H stoppskrúfuna þannig að stýritannhjólið sé í flútti við minnsta tannhjólið í settinu. (Herða til að færa stýritannhjólið nær dekkinu).
  2. Stilla vinstra megin: Setja hjólið í 1. gír og snúa pedulunum. Stilla L stoppskrúfuna þannig að stýritannhjólið sé í flútti við stærsta tannhjólið í settinu. Að herða L skrúfuna færir keðjuna fjær teinunum.
  3. Stilla skiptinguna milli gíra: Nota pedalana til að snúa afturhjólinu og skipta á sama tíma milli gíra, upp og niður. Ef gírarnir hökta þegar skipt er á lægri gír (keðjan fer yfir á stærri tannhjól), þá á að slaka á Bil hnappnum. Ef gírarnir hökta þegar skipt er á hærri gír (keðjan fer yfir á minni tannhjól) þá á að herða á Bil hnappnum.

 

Endurtaka nr. 1, 2 og 3 nokkrum sinnum, til að fá skiptinguna góða.

Barka festingin er notuð til að gera bakrann stífari (vanalega óþarfi).

B skrúfan er til að hækka og lækka neðsta stýritannhjólið (þetta rauða), (vanalega óþarfi).

Muna að smyrja keðjuna oft og vel.

Á Youtube.com er einnig hægt að finna leiðbeiningar um hvernig farið er að.